8 Mars 2013 12:00

Tilkynning barst til lögreglunnar á Suðurnesjum í fyrrinótt þess efnis að brotist hefði verið inn í geymsluhúsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ. Húsnæðið er notað sem geymsla fyrir hjólhýsi, fellihýsi og torfæruhjól. Farið hafði verið inn í eitt hjólhýsanna, en ekki er enn ljóst hvort einhverju var stolið úr því.

Hins vegar var torfæruhjóli stolið úr geymsluhúsnæðinu. Það er af gerðinni TM Racing 300 2TEN. Hjólið er með silfurlita grind og plastið blátt að lit. Það sem einkennir hjólið er, að lokið á forðabúrinu er grænt. Hjólið var skráð 5/6 2001

Þeir sem kunna að geta gefið upplýsingar um hvar hjólið er niðurkomið eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420-1800.

Númer klippt af sjö bifreiðum

Lögreglan á Suðurnesjum hefur tekið skráningarnúmer af sjö bifreiðum á undanförnum dögum vegna þess að þær voru ótryggðar eða höfðu ekki verið færðar til aðalskoðunar eða endurskoðunar innan tilskilins tímaramma. Í einu tilvikanna var bifreiðin bæði óskoðuð og ótryggð.

Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Annar ók á 116 kílómetra hraða á Reykjanesbraut en hinn á 113 kílómetra hraða á Grindavíkurvegi. 90 kílómetra hámarkshraði er á báðum þessum akbrautum.