18 Nóvember 2010 12:00

Þegar rýnt er í tölfræði um þróun brota í Grafarvogi og á Kjalarnesi er staða mála að mörgu leyti viðunandi. Á báðum stöðum hefur t.d. innbrotum á heimili fækkað frá því í fyrra. Ofbeldisbrot eru fá á þessum svæðum og þá eru tilkynningar um eignaspjöll í Grafarvogi hátt í helmingi færri en þau voru á fyrsta starfsári embættisins. Ekki er þó allt til fyrirmyndar og þegar kemur að þjófnaðarbrotum mættu tölurnar fyrir Kjalarnes vera miklu betri. Í þeim efnum er einkum um að kenna innbrotum í bíla við Esjurætur. Mörg slík mál hafa komið á borð lögreglu sem hefur ítrekað varað við því að verðmæti séu ekki skilin eftir í bílum. Hún hefur jafnframt minnt á að ef það er óumflýjanlegt sé mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki hafðir í augsýn. Svo virðist sem varnaraðarorð af þessu tagi hafi ekki borist öllum til eyrna því enn er verið að brjótast inn í bíla og stela úr þeim verðmætum. Það skal þó undirstrikað að vandamál af þessu tagi hafa líka komið upp víða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki var annað að heyra en fundarmenn væru almennt sáttir með áðurnefnda stöðu mála en hún var kynnt á fundi sem haldinn var í Miðgarði í gær. Á honum voru bæði fulltrúar Grafarvogsbúa og Kjalnesinga en skilaboð þeirra til lögreglunnar voru samt skýr og voru á þá leið að ekki mætti sofna á verðinum þrátt fyrir ágæta stöðu mála. Undir það skal vissulega tekið en með samstilltu átaki allra er hægt að gera enn betur. Íbúar geta t.d. látið lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir o.þ.h. Af öðru efni fundarins má nefna að forvarnamál voru nokkuð til umræðu. Bent var á að lögreglan kæmi nú sjaldnar í skólana en áður og væri af því eftirsjá. Hér var um réttmæta ábendingu að ræða en því er til að svara að lögreglan hefur verið að draga sig út úr almennri fræðslu af þessu tagi, m.a. vegna sparnaður en líka vegna áherslubreytingu. Eftir sem áður er lögreglan ávallt tilbúin að leggja þessum málum lið ef hún fær því við komið. Tölfræði frá fundinum í Miðgarði má nálgast hér.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is