25 Október 2006 12:00

Í gær, 24. október, dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur íslenskan karlmann á þrítugsaldri til 11 mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa skallað lögreglumann í höfuðið og hótað þremur lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra ofbeldi og lífláti. Af þessum ellefu mánuðum eru 200 dagar óafplánaðar eftirstöðvar eldri dóms fyrir meiriháttar líkamsárás o.fl.

Ríkissaksóknari ákærði manninn í vor en hann mætti ekki við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í sumar. Um síðastliðin mánaðamót fékk Alþjóðadeild Ríkislögreglustjórans beiðni frá dómsmálaráðuneytinu um að eftirlýsa manninn á alþjóðavettvangi í gegnum upplýsingakerfi INTERPOL og Schengen.

Sú eftirlýsing leiddi til þess að maðurinn var handtekinn í Kaupmannahöfn þann 11. október sl. og úrskurðaður í gæsluvarðahald að beiðni íslenskra yfirvalda.

Maðurinn var framseldur til Íslands sex dögum síðar eða þann 17. þ.m. og færður fyrir dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur næsta dag en sleppt að því búnu. Í dag var hann dæmdur fyrir brotin eins og fyrr segir.

Þetta mál er til marks um hversu hratt alþjóðleg lögreglusamvinna getur gengið fyrir sig fyrir tilstuðlan INTERPOL og Schengen samstarfsins.