9 September 2004 12:00

Fimmtudaginn   9. september 2004 kl. 17:04 var tilkynnt um mann sem var illa á sig kominn á gangi í Keflavík.  Maðurinn virtist vera í annarlegu ástandi og var færður til lögreglustöðvar.  Lögreglan hringdi á heimili mannsins og svaraði karlmaður í símann, en fram kom í samtalinu að hann væri sonur mannsins sem lögreglan hafði fært til lögreglustöðvar.  Eftir samtalið þótti lögreglu ástæða til að kanna ástand sonarins og voru tveir lögreglumenn sendir á staðinn.  Á vettvangi kom sonurinn á móti þeim út á lóðina fyrir utan húsið.  Hann var æstur og árásargjarn og hafði í hótunum við lögreglumenn og mjög erfitt var að skilja hvað hann var að segja.   Veittist hann að lögreglumönnunum og upphófust mikil átök milli hans og lögreglumannanna.  Þegar lögreglan hafði náð tökum á honum og sett hann í handjárn varð hann alvarlega veikur og lést skömmu síðar.  Málið hefur verið sent Ríkissaksóknara til ákvörðunar um hvaða lögregluembætti skuli  fara með rannsóknina.