12 Júlí 2013 12:00

Ökumaður fólksbifreiðar var í dag sviptur ökurétti eftir að hann ók bifreið sinni á 185 kílómetra hraða á Lyngdalsheiði á leið að Laugarvatni. Nokkur umferð var þegar hraðaksturinn átti sér stað.  Undanfarið hafa lögreglumenn verið við hraðamælingar á Lyngdalsheiðarvegi.  Því miður eru þar of margir sem aka þar yfir leyfilegum hraða. 

Öllu hægar fór ökumaðurinn sem kærður var fyrir hraðakstur á Suðurlandsvegi undir Ingólfsfjalli.  Sá mældist á 114 kílómetra hraða. 

 Uppúr klukkan sex í morgun höfðu lögreglumenn afskipti af ökumanni sem var á akstri eftir Biskupstungnabraut við Þingvallaveg.  Sá  reyndist vera undir áfengisáhrifum.  Hann var fluttur á lögreglustöðina á Selfossi í blóðsýnatöku.  Að því loknu var hann frjáls ferða sinna.  Ekki leið á löngu þar til maðurinn fór að berja á glugga lögreglustöðvarinnar og grýta hana.  Maðurinn var þá handtekinn aftur og færður í fangaklefa og látinn sofa úr sér.