24 Júní 2009 12:00
Í dag, miðvikudag, og á morgun, fimmtudag, verður unnið að malbikunarframkvæmdum á Suðurlandsvegi á vegarkafla ofan við Kamba. Vegfarendur eru beðnir að aka gætilega og sýna malbikunarmönnum tillitssemi og fara eftir umferðarmerkingum. Lögreglan á Selfossi vekur athygli á að merkingar vegna framkvæmdanna eru mjög góðar og skýrar og hrósar starfsmönnum verktakans, Malbikunarstöðinni Höfða, fyrir mikinn metnað við það verk. Merkingarnar er góð fyrirmynd fyrir aðra sem að vegavinnu starfa. Það skiptir miklu máli fyrir öryggi starfsmanna og vegfarendur að merkingar séu skýrar. Einnig er það mikilvægt þegar lögregla stendur frammi fyrir því að kæra ökumenn sem ekki fara eftir leiðbeiningum um umferð, sem gefnar eru með umferðarmerkjum eins og kveðið er á um í 5. grein umferðarlaga.