19 Nóvember 2008 12:00

Farið var ítarlega yfir stöðu og þróun mála í Grafarvogi og á Kjalarnesi á sameiginlegum fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt í Miðgarði á mánudag. Jafnframt voru kynntar niðurstöður úr könnun um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar og þar kemur margt forvitnilegt í ljós. Þannig eru tæplega 90% Grafarvogsbúa ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í hverfinu. Margir íbúar í Grafarvogi töldu hinsvegar að lögreglan væri ekki nógu aðgengileg þegar þeir þyrftu að fá upplýsingar, aðstoð eða fræðslu en 37% sögðu svo vera. Ýmsar fleiri spurningar voru lagðar fyrir íbúana en allar niðurstöðurnar verða birtar á heimasíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðar í vetur. Leitað var eftir þátttöku Kjalnesinga í könnuninni en svarhlutfall þeirra var mjög lágt og því erfitt að meta raunverulegt viðhorf íbúa á Kjalarnesi til lögreglu.

Staða mála á Kjalarnesi er aftur á móti góð þegar rýnt er í tölfræðina. Afbrot á svæðinu eru fátíð og þar fækkaði innbrotum árið 2007 í samanburði við árin á undan. Á fulltrúum Kjalnesinga á fundinum mátti helst heyra að þar hefðu menn einkum áhyggjur af umferðarmálum enda liggur Vesturlandsvegur þar í gegn. Grafarvogsbúar tóku í sama streng en í hverfinu þeirra er víða ekið of hratt, eins og hraðamælingar lögreglu sanna. Helsta áhyggjuefni þeirra eru samt eignaspjöll og það sást glögglega í áðurnefndri könnun en í henni var líka spurt um það brot sem íbúarnir telja mesta vandamálið í sínu hverfi. Tæplega þriðjungur Grafarvogsbúa nefndu eignaspjöll en veggjakrot hefur mátt sjá víða í hverfinu. Á þessu ári sýnist þó hafa dregið úr veggjakroti og er það vel. Af öðru má nefna að ofbeldisbrotum fækkaði lítillega í Grafarvogi á milli ára. Þau voru 44 árið 2007 en 48 árið á undan. Mjög dró úr nytjastuldi á þessu sama tímabili en fjöldi fíkniefnabrota er svipaður á milli ára. Auðgunarbrotum fjölgaði hinsvegar aðeins.

Árný Inga Pálsdóttir, Jóhanna Vilbergsdóttir og Valgerður Selma Guðnadóttir.

Árni Pálsson og Róbert Gunnarsson.

Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Yngvi Hagalínsson.