28 Nóvember 2011 12:00

Málefni miðborgarinnar voru í brennidepli á fundi sem fulltrúar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu áttu með lykilfólki úr Miðborgarhverfinu í dag. Farið var yfir þróun brota í þessum borgarhluta síðustu fjögur árin en bornir voru saman fyrstu tíu mánuðir áranna 2008-2011. Þótt óneitanlega sé nokkuð um afbrot á miðborgarsvæðinu fer þeim engu að síður fækkandi. Það er vel og vonandi heldur sú jákvæða þróun áfram en tölfræðina frá fundinum má annars nálgast með því að smella hér.

Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður úr könnun um viðhorf fólks til lögreglu en íbúar á miðborgarsvæðinu telja hana almennt skila góðu starfi á svæðinu en 85% aðspurðra töldu svo vera. Eftir kynningu lögreglunnar tóku við almennar umræður og eins og jafnan áður var talsvert rætt um veitinga- og skemmtistaði og ónæði sem þeim getur fylgt. Fundargestir voru sammála um að rekstraraðilar þessara staða gætu gert betur þegar kemur að því að virða friðhelgi íbúanna. Sem fyrr var kvartað undan hávaða frá sumum þessara staða en engin einföld lausn virðist til staðar.

Það er oft gaman í miðborginni.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is