12 Nóvember 2002 12:00
Dagana 28. – 30. október s.l. voru nemendur Lögregluskólans þjálfaðir í mannfjöldastjórnun og óeirðalöggæslu eftir verklagsreglum sem Ríkislögreglustjórinn hefur nýlega sett. Í tengslum við utanríkisráðherrafund NATO dagana 14. og 15. maí 2002 voru um 100 lögreglumenn þjálfaðir sérstaklega í mannfjöldastjórnun og óeirðalöggæslu.
Tilgangurinn með þessari þjálfun er sá að ætíð séu til staðar hér á landi lögreglumenn sem geti tekist á við verkefni á þessu sviði og starfað eftir stöðluðum aðferðum og skipulagi sem samhæfður hópur undir skipulegri stjórn.
Á undangengnum árum hefur mannfjöldastjórnun og óeirðalöggæsla verið lítillega kennd í Lögregluskólanum. Hins vegar hafa ekki fyrr en nú verið fyrir hendi verklagsreglur eða heildstætt skipulag um framkvæmdina og má segja að margt af því sem áður var kennt hafi verið orðið úrelt.
Verklag lögreglu þarf að vera í sífelldri endurskoðun því þjóðfélagsbreytingar kalla á breyttar aðferðir og tækjabúnað. Sífelld framþróun er á því sviði og nauðsynlegt að lögreglan fylgist vel með og tileinki sér nýjan búnað og vinnuaðferðir.
Þjálfun nemendanna var samstarfsverkefni embættis Ríkislögreglustjórans og Lögregluskólans og leiðbeinendur voru, auk kennara skólans, tveir starfsmenn sérsveitar Ríkislögreglustjórans.
Í myndasafni Lögregluskólans hér á vefnum er að finna nokkrar ljósmyndir sem teknar voru þegar þjálfunin fór fram.