5 Október 2012 12:00

Mannlaus sendibifreið með kerru aftan í lagði af stað frá útgerðarfyrirtækinu Vísi í Grindavík í gær, rann niður bratta brekku, áfram yfir götu og hafnaði á grjótgarði við höfnina. Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um þetta óvænta ferðalag bifreiðarinnar um hádegisbilið í gær. Bílnum hafði verið lagt á bílastæði við Vísi og rann hann tugi metra áður en grjótgarðurinn stöðvaði ferð hans.  Af förum eftir hann að dæma hafði hann rétt sneytt fram hjá ljósastaur í brekkunni. Farmur var á kerrunni sem hann dró. Minni háttar skemmdir urðu á bíl og kerru.

Tvær slösuðust en barnið slapp

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni tilkynning þess efnis að á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja væru staddar þrjár ungar konur með kornabarn og að þær væru slasaðar eftir umferðarslys. Í ljós kom að tvær kvennanna höfðu verið farþegar í bíl, ásamt kornabarninu, en sú þriðja keyrt. Þegar bifreiðin var stöðvuð á rauðu ljósi var annarri bifreið ekið aftan á hana með þeim afleiðingum að farþegarnir tveir kenndu eymsla. Konurnar fóru rakleiðis á Heilbrigðisstofnun til að leita sér aðhlynningar og var önnur þeirra flutt til Reykjavíkur til frekari skoðunar. Ungabarnið var í barnastól og slapp það ómeitt.

Svartur pakki við Leifsstöð

Lögreglan á Suðurnesjum fékk í gær tilkynningu frá öryggisgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þess efnis að svartur pakki væri utan dyra við brottfarardyr Flugstöðvarinnar. Lögregla fór þegar á vettvang og opnaði pakkann. Í honum reyndist vera frosinn fiskur, sem hafnaði ásamt umbúðunum í næsta ruslagámi.

Ökumenn við skóla til sóma

Lögreglan á Suðurnesjum hélt uppi eftirliti með umferð við grunnskóla og leikskóla í umdæminu í vikunni. Allir þeir ökumenn sem áttu leið um viðkomandi götur voru í öryggisbeltum og enginn ók yfir hámarkshraða. Ástand var því í góðu lagi að öllu leyti nema því að nokkrir foreldrar höfðu lagt bílum sínum upp á gangstétt við einn leikskólann og skapað þar með óþægindi fyrir gangandi vegfarendur. Lögregla ræddi við ökumennina, sem þetta gerðu og lofuðu þeir að láta þetta ekki koma fyrir aftur.