1 Ágúst 2022 09:49

Dagskrá þjóðhátíðar 2022 lauk sem kunnugt er nú í nótt. Mikill mannfjöldi var á svæðinu og náði fjöldinn hámarki undir miðnættið í gærkvöldi þegar brekkusöngur fór fram í Herjólfsdal. Síðasti sólarhringur hátíðarinnar var ívið rólegri hjá lögreglu en sólarhringurinn á undan sem sést best á því að  einungis einn var vistaður í fangageymslu sl. nótt. Ein líkamsárás var skráð hjá lögreglu og átta fíkniefnamál. Í öllum fíknefnamálunum var um minniháttar mál að ræða. Tvö minniháttar slys eru skráð þar sem viðkomandi hafði skrikað fótur og fallið í jörðina. Um minniháttar meiðsli var að ræða í báðum tilfellum.

Herjólfur hóf að flytja þjóðhátíðargesti upp á land kl. 02:00 í nótt og mun sigla þétt milli lands og Eyja í allan dag og fram á nótt. Lögregla hvetur ökumenn sem fyrr til að gæta vel að því að aka ekki af stað fyrr en allt áfengi er farið úr blóði.  Lögreglumenn verða með áfengismæla á ferð bæði í Vestmannaeyjum og í Landeyjahöfn í dag og eru ökumenn hvattir til að nýta sér það áður en ekið er af stað út í umferðina.