8 Maí 2024 15:17

Ríkislögreglustjóri, Háskólinn á Akureyri og UN Women alþjóðasamtökin hafa tekið höndum saman um að efla enn frekar jafnrétti í löggæslu á Íslandi. Framkvæmdasjóður jafnréttismála styrkti dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóra vegna samstarfsverkefnisins og miðar það meðal annars að því:

  1. Að stuðla að réttlátari vinnumenningu, jafnari tækifærum til ráðninga og starfsframa á öllum sviðum löggæslu.
  2. Að veita öllum þegnum samfélagsins sanngjarna og góða þjónustu frá lögreglunni.

Sérstök áhersla er lögð á að styðja við íslensku lögregluna til auka enn frekar getu og skilvirkni við að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og bæta enn meðferð slíkra mála innan réttarvörslukerfisins. Verkefnið miðar jafnframt að því að halda áfram að vinna að því að draga úr heimilisofbeldi, kynferðisbrotum og öðru kynbundnu ofbeldi og þar með efla enn frekar öryggi íslensks samfélags.

Fyrsti fasi verkefnisins snýr að kortlagningu á núverandi stöðu er varðar jafnrétti í löggæslu. Er það gert með greiningu á stefnumörkun stjórnvalda, fyrirliggjandi gögnum, vettvangsheimsóknum og viðtölum. Sérfræðingar frá UN Women dvelja nú hér á landi vegna verkefnisins og ræða þau meðal annars við kennara og starfsfólk í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri og Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu, nemendur, millistjórnendur lögreglu auk starfsfólks úr röðum sérhæfðra eininga líkt og sérsveit ríkislögreglustjóra. Að lokinni heimsókn skila sérfræðingar UN Women af sér tillögum til útbóta og munu fylgja tillögunum eftir með samstarfsaðilum.

Verkefnið þróaðist út frá þátttöku Íslands í átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis þar sem Ísland fer með forystu í aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi og byggir á handbók UN Women um kynrænt viðbragð í löggæslu fyrir konur og stúlkur sem orðið hafa fyrir ofbeldi  sem var unnin í samvinnu við UNODC, skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og glæpi og IAWP, alþjóðasamtöklögreglukvenna.