14 September 2012 12:00

Fertugur karlmaður situr nú í gæsluvarðhaldi eftir að tollgæsla stöðvaði hann í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við hefðbundið eftirlit 27. ágúst síðastliðinn. Hann var að koma til landsins frá Kaupmannahöfn. Grunur lék á að maðurinn, sem er þýskur ríkisborgari, væri með fíkniefni innvortis. Lögreglan á Suðurnesjum handtók hann því og færði hann í sneiðmyndatöku, sem sýndi að um mikið magn virtist vera að ræða. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir að hann var handtekinn og á næstu dögum skilaði hann af sér 107 pakkningum sem allar innihéldu kókaín. Við aðra sneiðmyndatöku kom í ljós að ein pakkning til viðbótar sat föst efst í meltingarvegi hans. Hann var því færður á sjúkrahús þar sem gerð var á honum aðgerð til að fjarlægja pakkninguna. Maðurinn reyndist hafa flutt innvortis 1.3 kíló af kókaíni milli landa. Er þetta talið mesta magn fíkniefna sem einstaklingur hefur flutt innvortis í einni ferð.  Efni pakkninganna var þykkt og vel til þeirra vandað.  Tómar vógu þær um 200 grömm, þannig að samtals hafði maðurinn gleypt 1.5. kíló. Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins og telst hún vera á lokastigi. Ekki hafa fleiri verið handteknir vegna þess. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að málið kom upp.