2 Apríl 2012 12:00

Um helgina framvísaði maður fölsuðu skilríki í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þetta er fjórða fölsunarmálið sem kom upp í síðustu viku.

Föstudaginn 30. mars kom maður með flugi til Keflavíkurflugvallar frá Manchester í Englandi og átti bókað með flugi áfram til Toronto í Kanada. Við innritun í flugið til Kanada framvísaði hann frönsku vegabréfi sem þótti grunsamlegt. Lögregla tók vegabréfið og manninn til skoðunar. Niðurstaða andlitssamanburðar er sú að maðurinn sé ekki lögmætur handhafi vegabréfsins.

Maðurinn hefur ekki játað að vegabréfið sé ekki hans og ekki gefið upp sitt rétta nafn og þjóðerni.

Málið er nú í rannsókn.

Þetta er sjöunda fölsunarmálið á árinu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Allt árið 2011 voru fölsunarmálin 33 talsins.