6 Apríl 2012 12:00

Með fíkniefni innvortis

Rúmlega tvítug kona var stöðvuð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrradag við hefðbundið eftirlit tollgæslu vegna gruns um að hún væri með fíkniefni í fórum sínum. Lögreglan á Suðurnesjum færði konuna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og reyndist hún vera með eina pakkningu af meintu hassi innvortis. Málið telst upplýst. Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005 þar sem hægt er að koma gjaldfrjálst á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál undir nafnleynd.

Suðandi rakvél í farangri

Starfsmaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar óskaði í vikunni eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum vegna ókennilegs hljóðs úr farangurstösku sem verið var að hlaða um borð í farþegavél er var á leiðinni til New York. Lögreglumaður mætti á staðinn ásamt öryggisverði og var eigandi töskunnar kallaður til. Þegar skyggnst var í töskuna kom í ljós að suðið kom frá rakvél sem í henni var. Eftir þessa niðurstöðu var taskan sett um borð í vélina.

Tveir sjoppuþjófar handteknir

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í nótt tilkynning um að brotist hefði verið inn í söluskála í umdæminu. Þar hafði rúða verið brotin, farið inn og varningi stolið, einkum sígarettum. Lögregla hafði fljótlega upp á tveimur mönnum sem grunaðir voru um verknaðinn. Þeir voru handteknir og færðir á lögreglustöðina. Í herbergi annars þeirra fann lögreglan síðan meint þýfi úr söluskálanum. Mennirnir viðurkenndu brot sín og voru látnir lausir að yfirheyrslum loknum.

Drykkfelldur ferðalangur

Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt um mjög ölvaðan erlendan ferðalang á hóteli í umdæminu. Hann var sagður hafa tæmt minibarinn þar en ekki átt peninga til að borga. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð, að eigin beiðni, þar sem hann fékk að sofa úr sér. Tveimur dögum síðar, í fyrradag, var svo lögreglunni tilkynnt um gest á öðru hóteli, sem væri þar ofurölvi eftir að hafa drukkið mikið á barnum án þess að geta borgað. Þegar lögreglumenn komu á staðinn reyndist vera um að ræða sama mann og tæmt hafði minibarinn á fyrra hótelinu. Hann var aftur fluttur í klefa og látinn sofa úr sér. Um miðjan dag í gær var lögreglu svo tilkynnt um ofurölvi mann sem væri að borða súkkulaði af afgreiðsluborði á veitingasölu í umdæminu. Enn reyndist þar vera hinn erlendi ferðamaður á ferðinni og í þriðja sinn fékk hann að gista fangaklefa. Maðurinn var sendur úr landi á eigin vegum síðdegis í dag.