5 Október 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum handtók tvo ökumenn í fyrradag, sem báðir óku sviptir ökuréttindum og voru að auki grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Annar ökumaðurinn, karlmaður á fertugsaldri hafði verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Lögregla leitaði í bifreið hans, með aðstoð fíkniefnahunds embættisins, og fannst kannabisefni í hanskahólfi bílsins. Hinn ökumaðurinn, karlmaður um tvítugt, heimilaði leit í bifreið sinni. Þar fundust bensínbrúsar, slöngur og trekt í farangursgeymslu.

Tveimur bílum stolið

Tveir bílaþjófnaðir voru tilkynntir til lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Fyrri bílnum var stolið í Vogum aðfararnótt miðvikudagsins á tímabilinu frá miðnætti til kl. 8 um morguninn. Um er að ræða Toyotu Corollu með númerið VN934. Í nótt var svo annarri bifreið stolið úr innkeyrslu við húsnæði í Njarðvík. Um er að ræða Toyotu Corollu með númerið KI830. Lítið bensín var á síðarnefndu bifreiðinni og telur eigandinn að sá sem tók hana hafi ekki komist langt. Lögreglan biður þá sem kunna að hafa upplýsingar um þessar tvær bifreiðar að hafa samband í síma 420-1800.

Lenti í vindhviðu og skall á gangstétt

Karlmaður á þrítugsaldri missti stjórn á bifhjóli sem hann ók í Njarðvík í vikunni, kastaðist fram fyrir það og skall á gangstétt. Hann hlaut skrámur á fótleggjum og olnboga. Óhappið varð með þeim hætti að maðurinn lenti skyndilega í vindhviðu, missti stjórn á hjólinu og lenti á gangstéttarkanti með ofangreindum afleiðingum. Lögregla og sjúkraflutningamenn á Suðurnesjum mættu á vettvang en maðurinn taldi ekki þörf á því að leita til læknis eftir atvikið.