14 Ágúst 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum handtók  í gærkvöld gest í Bláa lóninu,  karlmann á þrítugsaldri sem grunaður var um vörslur fíkniefna. Hafði sígarettupakki fallið úr vasa á baðslopp mannsins á bakka lónsins og reyndist í honum vera glær poki. Í pokanum var grænt efni sem talið er vera kannabisefni. Í skáp mannsins í baðklefanum fannst síðan hjartastuðtæki, sem horfið hafði úr sjúkraherbergi Bláa lónsins. Var það vafið inn í blátt handklæði. Þá hafði hann tekið út veitingar fyrir rúmlega tíu þúsund krónur, sem hann kvaðst síðan ekki vera borgunarmaður fyrir. Loks reyndist maðurinn vera með fjóra farsíma þegar hann var handtekinn. Grunur leikur á að um þýfi sé að ræða.