25 Maí 2012 12:00

Með loftbyssu og skotfæri í Leifsstöð

Lögreglunni á Suðurnesjum var í fyrradag gert viðvart um að karlmaður væri með loftbyssu og skotfæri í fórum sínum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Höfðu munirnir komið fram við skimun öryggisgæslu á farangri mannsins. Eigandinn, erlendur ferðamaður, kvaðst hafa komið með skipi frá Noregi og vera á leiðinni til Grænlands með flugi. Honum var gerð grein fyrir að óleyfilegt væri að ferðast með muni af þessu tagi og lagði lögregla síðan hald á loftbyssuna, tvo kassa af loftþrýstihylkjum og fjögur box af skotfærum.

Ellefu óku of hratt

Ellefu ökumenn hafa verið staðnir að hraðakstursbrotum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Sjö hinna brotlegu ökumanna óku um  Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Sá sem hraðast ók mældist á 134 kílómetra hraða. Þá voru þrír staðnir að of hröðum akstri á Njarðarbraut og einn á Grindavíkurvegi.

Fjórir á nagladekkjum

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í vikunni fjóra ökumenn sem allir óku á bílum með negldum dekkjum. Þetta er dýrt spaug því akstur á nagladekkjum er bannaður á þessum árstíma og sekt fyrir hvert slíkt dekk nemur fimm þúsund krónum.  Þá stöðvaði lögregla akstur tveggja bifreiða sem báðar voru með litaðar filmur í fremri framrúðum.  Slíkur búnaður er óheimill samkvæmt umferðarlögum og nemur sekt við því fimm þúsund krónum. Að auki er viðkomandi bifreiðareiganda gert að færa bíl sinn til skoðunar til að hægt sé að ganga úr skugga um að lituðu filmurnar hafi verið fjarlægðar. Þessi óheimili aukabúnaður getur því kostað á annan tug þúsunda króna þegar allt er talið.

Ölvaður og réttindalaus velti bíl

Ölvaður ökumaður, karlmaður á fertugsaldri, velti bifreið á Reykjanesbraut í fyrrinótt. Hann missti stjórn á bílnum sem hafnaði utan vegar milli akgreina. Einn farþegi var í bílnum og sluppu báðir ómeiddir. Hinn ölvaði ökumaður reyndist hafa ekið sviptur ökuréttindum þegar að var gáð. Hann var látinn sofa úr sér í fangaklefa og sleppt að loknum yfirheyrslum. Þá var annar ökumaður, karlmaður á þrítugsaldri handtekinn þar sem hann ók sviptur ökuréttindum og grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Fjögur hjól skemmd og tveimur stolið

Þjófnuðum á reiðhjólum hefur fjölgað umtalsvert í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum undanfarna daga. Í vikunni tilkynnti kona að reiðhjóli dóttur sinnar hefði verið stolið , þar sem það stóð fyrir utan heimili þeirra. Eigandinn hafði skroppið inn en þegar hún kom út aftur var hjólið horfið. Einnig var tilkynnt um stuld á fjallahjóli í Grindavík. Þá var lögreglu tilkynnt um skemmdir á fjórum reiðhjólum sem öll eru í eigu sömu fjölskyldu.

Innbrot og þjófnaður í fyrirtæki

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í morgun tilkynning þess efnis að brotist hefði verið inn í fyrirtæki hjá Grófinni í Keflavík og þaðan stolið skrifstofubúnaði. Þjófurinn hafði komist inn í bygginguna með því að fjarlægja lista sem héldu tréspjaldi sem var í glugga byggingarinnar  í stað glers. Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem þjófar heimsækja fyrirtækið, því fyrr í vikunni var lögreglu tilkynnt um að þaðan hefði verið stolið dekkjum og fleiri munum. Lögregla biður þá sem kynnu að búa yfir upplýsingum  um þessi mál að hafa samband í síma 420-1800.