11 Febrúar 2013 12:00

Tveir karlmenn á fertugsaldri sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á smygli á þremur kílóum af amfetamíni til landsins. Tollgæslan stöðvaði för mannanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um að þeir væru með fíkniefni með sér. Sú reyndist raunin því annar þeirra, sem kom til landsins í byrjun síðasta mánaðar var með tvö kíló af amfetamíni í farangrinum. Þeim hafði verið komið fyrir í dósum undan barnamjólkurdufti. Hinn, sem kom til landsins 29. janúar var með eitt kíló af amfetamíni, sem hann var í niðursuðudósum undan matvælum.

Mennirnir, sem báðir eru pólskir ríkisborgarar, komu frá Varsjá. Gæsluvarðhald yfir þeim rennur út næstkomandi miðvikudag og mun lögreglustjórinn á Suðurnesjum leggja fram kröfu um framlengingu.

Einn aðili var handtekinn vegna fyrra málsins, en látinn laus að loknum yfirheyrslum. Málið er enn í rannsókn.

Ökuníðingur stöðvaður

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í gærkvöld rúmlega tvítugan ökumann, sem margoft hefur komið við sögu vegna fíkniefnabrota, auk þess sem vitað var að hann ók sviptur ökuréttindum. Hann var fluttur á lögreglustöð. Þar staðfestu sýnatökur að hann hafði neytt kannabisefna, amfetamíns og kókaíns. Maðurinn er eigandi bifreiðarinnar og í ljósi síendurtekins brotaferils hans haldlagði lögreglan hana að svo komnu máli.

Grunur leikur á að sama bifreið hafi verið á ferðinni þegar lögregla var við umferðareftirlit fyrr um kvöldið og mældi þá bifreið á Reykjanesbrautinni á 183 kílómetra hraða. Skyggni var afar slæmt á þeim tíma og tókst ökumanninum því að láta sig hverfa í sortann. Hann var svo handtekinn skömmu síðar með ofangreindum afleiðingum.