9 Febrúar 2013 12:00

Þjófnaður úr verslun í Reykjanesbæ var tilkynntur til lögreglunnar á Suðurnesjum í fyrrakvöld. Eigandi hennar var búinn að loka, en hafði láðst að setja almennilega í lás, þegar þrír menn komu skyndilega inn. Einn þeirra, sem sýnilega var ölvaður, tók hann tali meðan hinir tveir völsuðu um verslunina. Eigandinn bar þá vinsamlegast um að yfirgefa staðinn þar sem búið væri að loka. Þeir urðu fljótlega við því en um leið og þeir snöruðu sér út í nóttina tók verslunareigandinn eftir því að einn þeirra var þá kominn með kryppu á bakið og áttaði hann sig þá á því að þeir höfðu látið greipar sópa. Við athugun kom í ljós að þeir höfðu stolið varningi fyrir á þriðja tug þúsunda. Lögregla rannsakar málið.

Þrír handteknir í fíkniefnaakstri

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gær tvo ökumenn sem óku undir áhrifum fíkniefna. Sýnatökur staðfestu í báðum tilvikum að mennirnir höfðu neytt kannabis. Þeir eru báðir innan við tvítugt.

Í fyrradag stöðvaði lögregla ökumann á þrítugsaldri vegna gruns um að hann undir áhrifum fíkniefna. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu það sama og hjá hinum tveimur, að maðurinn hafði neytt kannabisefna.

Sviptur ævilangt ók ölvaður

Lögreglumenn á Suðurnesjum komu í gærkvöld auga á kyrrstæða bifreið, sem þótti ástæða til að kanna nánar. Í henni reyndust vera tveir menn við drykkju. Þeim var bent skilmerkilega á að þeir gætu ekki ekið bifreiðinni eins og ástatt væri um þá. Að því búnu héldu lögreglumenn á brott.

Ekki leið langur tími þar til þeir sáu til bifreiðarinnar í akstri á Selvíkurvegi. Þar var kominn annar mannanna sem lögregla hafði rætt við skömmu áður. Hann stöðvaði bifreiðina, fór út og gekk aftur fyrir hana. Í henni voru áteknar og óáteknar áfengisumbúðir. Á lögreglustöð þrætti maðurinn fyrir að hafa ekið, en sagðist aðeins hafa drukkið tvo bjóra.

Auk ofangreinds hafði hann áður verið sviptur ökuréttindum ævilangt.