18 Febrúar 2013 12:00

Einn fjögurra ökumanna, sem lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina vegna fíkniefnaaksturs, reyndist geyma kannabisefni í herbergi sem hann leigir í umdæminu, þegar húsleit var gerð þar. Þá fundu lögreglumenn tóbaksblandað kannabis á eldhúsborði í húsnæðinu.

Húsráðandi sá sem leigir ökumanninum var á ferli í stigagangi húsnæðisins þegar lögreglumenn bar að garði. Hann reyndist vera með smáræði af kannabis í vasa sínum og svo 70 grömm af sama efni í bakpoka sem hann var með á sér.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

Ók utan í bíldekk og velti

Bílvelta varð við Staðarhraun í Grindavík á tíunda tímanum í gærkvöld. Lögreglan á Suðurnesjum og sjúkralið fóru á staðinn og þar lá bifreið á hliðinni á miðjum veginum. Tildrög slyssins voru þau að ökumaður bifreiðarinnar ók utan í vinstra afturhjól bifreiðar, sem stóð kyrrstæð og mannlaus úti í vegkanti og missti við það stjórn á bifreið sinni. Ökumaðurinn var í bílbelti og kenndi sér ekki meins eftir bílveltuna.

Þá varð umferðarslys í Sandgerði, þar sem tvær bifreiðar skullu saman á gatnamótum. Ökumaður og farþegi í öðrum bílnum voru ekki í bílbelti og fundu til talsverðra eymsla í höfði og hálsi. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar var í bílbelti og slapp betur. Bifreiðarnar voru báðar óökufærar og voru fjarlægðar með kranabifreið.