4 Febrúar 2013 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum var um helgina kvödd í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna tveggja karlmanna sem voru með ólæti í vopnaleit. Mennirnir, sem eru báðir um fertugt, ætluðu með flugi SAS til Osló. Þeir voru undir áhrifum áfengis, en ekki áberandi ölvaðir. Við vopnaleitina höfðu þeir öskrað á fólk og verið með leiðindi. Annar þeirra hafði að auki rifið í vélar og tæki og hrist til. Þegar lögregla kom á vettvang var sá síðarnefndi enn æstur og ósamvinnuþýður, en hinn öllu rólegri. Í samráði við flugstjóra vélarinnar varð niðurstaðan sú að sá rólegri fengi að fara með vélinni, en hinn færi ekki um borð.

Einn handtekinn

Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um hálftólf leytið í morgun þess efnis að eldur væri laus í gistiheimilinu Fit sem er dvalarstaður hælisleitenda í Reykjanesbæ. Óskað var eftir slökkvi- og sjúkraliði á staðinn.

Þegar lögreglan kom á vettvang mætti henni þykkt reykjarkóf og eldur logaði út um glugga á einu herbergi á efri hæð. Lögreglumenn gengu úr skugga um að allir íbúar væru komnir út úr húsinu. Slökkviliðið réð niðurlögum eldsins fljótlega og hófst handa við að reykræsta húsnæðið.

Einn íbúi var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og var lagður inn vegna reykeitrunar. Annar íbúi var handtekinn og fluttur á lögreglustöð grunaður um íkveikju.

Lögreglan hafði samband við félagsmálayfirvöld til að tryggja að aðrir íbúar hússins kæmust í húsaskjól.

Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins, sem er á frumstigi, og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Blóðdropaslóð um allt hús

Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um innbrot í keiluhöllina að Ásbrú í gærmorgun. Þar hafði verið farið inn með því að kasta grjóti í glugga og brjóta hann. Hinn óboðni gestur hafði augsýnilega skorið sig þegar, hann fór inn, því blóðdropaslóð lá um allt hús. Þegar inn var komið braut hann gat á gipsvegg sem lá inn á gang milli Keiluhallarinnar og sjoppu. Þaðan braut hann sér leið inn í sjoppuna með því að brjóta gler með barefli. Blóðslóðin lá að afgreiðsluborði hennar en þá virðist viðvörunarkerfi, sem fór í gang, hafa stuggað við innbrotsþjófnum, því einskis var saknað. Hann fór sömu leið til baka og braut aðra rúðu í keiluhöllinni til að komast út.

Lögreglan rannsakar málið.

Stal eldavél frá nágranna

Íbúi í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum kom á lögreglustöð og tilkynnti að eldavél, sem hann hafði tekið úr íbúð sinni vegna breytinga innan stokks, hefði verið stolið af lóðinni. Kvaðst hann hafa sett hana þar til bráðabirgða, ásamt fleiru, þar á meðal baðkari. Karlmaður sem bjó skammt frá var grunaður um stuldinn. Lögregla bankaði upp á hjá honum og það stóð heima; þar var eldavélin komin. Lögreglan las manninum, sem er á fimmtugsaldri, pistilinn. Hann vissi upp á sig skömmina og lofaði að gera svona nokkuð aldrei aftur.