18 Ágúst 2011 12:00

Tveir stórviðburðir verða í höfuðborginni laugardaginn 20. ágúst, Reykjavíkurmaraþon og Menningarnótt. Búast má við miklum mannfjölda í miðborg Reykjavíkur af þessu tilefni. Vegna lokunar miðborgarinnar kunna einhverjar umferðartafir að verða og eru vegfarendur beðnir um að sýna þolinmæði og skilning.

Gestir Menningarnætur og íbúar í miðborginni eru hvattir til að kynna sér vel lokanir gatna og möguleg bílastæði utan svæðis, sem og strætósamgöngur sem verða ókeypis þennan dag. Lokanir gatna á Menningarnótt má sjá hér. Ökumenn sem leggja ökutækjum sínum ólöglega geta búist við stöðubrotsgjaldi eða að ökutækin verði fjarlægð.

Vegfarendum er að öðru leyti bent á að kynna sér upplýsingar um viðbúnað borgaryfirvalda á vef Menningarnætur, www.menningarnott.is eða í dagblöðum. Símaver Reykjavíkurborgar er opið á Menningarnótt frá kl. 13-23 og veitir upplýsingar í síma 4 11 11 11.