21 Ágúst 2008 12:00

Tveir stórviðburðir verða í höfuðborginni laugardaginn 23. ágúst næstkomandi, Reykjavíkurmaraþon og Menningarnótt. Búast má við miklum mannfjölda í miðbæ Reykjavíkur af þessu tilefni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun kappkosta að liðsinna gestum borgarinnar og greiða götu þeirra eftir föngum. Lögreglan, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Landsbjörg munu vera með aðstöðu í Ingólfsstræti/Sölvhólsgötu við húsakynni menntamálaráðuneytisins og hægt að leita þangað ef aðstoðar er þörf. Þar verður einnig athvarf fyrir týnd börn.

Vegna lokunar gatna kunna einhverjar umferðartafir að verða og eru vegfarendur beðnir um að sýna þolinmæði og skilning. Þá eru vegfarendur og beðnir um að haga akstri og lagningu bifreiða sinna þannig að ekki leiði til tafa eða óþæginda fyrir aðra umferð. Ökutæki sem lagt er þannig að skapi hættu eða óþægindi verða fjarlægð.

Sérstök athygli er vakin á því að umferðarljós á Sæbraut, Hringbraut, Miklubraut og Bústaðavegi verða tímabundið tekin úr sambandi þegar formlegri dagskrá Menningarnætur lýkur um klukkan 23:30. Umferð mun á meðan stjórnað af lögreglu þar sem þess verður þörf. Þá verður vinstri beygja af Bústaðavegi ( í vesturátt) inn á Kringlumýrarbraut til suðurs bönnuð tímabundið en það er gert til að liðka fyrir umferð um Bústaðaveg frá miðborginni. Ökumönnum er bent á aka Litluhlíð, Hamrahlíð og út á Kringlumýrarbraut.

Vegfarendum er að öðru leyti bent á að kynna sér upplýsingar um lokanir gatna og viðbúnað borgaryfirvalda á vef Reykjavíkurborgar, www.reykjavik.is eða í dagblöðum.

Að gefnu tilefni eru hrossa- og gæludýraeigendur beðnir um að huga að dýrum sínum vegna flugeldasýningar sem hefst kl. 23:08.