22 Október 2008 12:00

Þróun mála í miðborginni og Hlíðunum var kynnt á sérstökum fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt á mánudag. Um tuttugu og fimm manns sóttu fundinn en í þeim hópi var lykilfólk í þessum hverfum, m.a. fulltrúar íbúasamtaka og forsvarsmenn skólanna og foreldrafélaga. Töluverður umræður sköpuðust á fundinum sem var hinn gagnlegasti. Farið var yfir tölfræði ársins 2007 í samanburði við árin 2004-2006. Margt forvitnilegt kom í ljós og má t.d. nefna að tilkynningar um eignaspjöll í Hlíðunum árið 2007 voru mun færri en árið á undan. Fíkniefnabrotum fjölgaði hinsvegar á sama tímabili en hafa verður hugfast að þar kemur líka til frumkvæðisvinna lögreglumanna og því eru fleiri brot skráð í þennan málaflokk. Í miðborginni er sama þróun þegar kemur að fíkniefnabrotum en um fjölgun þeirra brota gildir líka sama skýring og áður var nefnd. Auðgunarbrotum hefur hinsvegar fækkað. Þau voru 832 í miðborginni árið 2006 en 736 árið eftir. Á sama tímabili fækkaði innbrotum úr 304 í 245.

Á fundinum var einnig kynnt niðurstaða könnunar um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Íbúar í miðborginni og Hlíðunum eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í þessum hverfum. Í sömu könnun kom jafnframt fram að íbúarnir telja innbrot og eignaspjöll mestu vandamálin. Íbúar í Hlíðunum nefndu einnig umferðarlagabrot til sögunnar en um þau var talsvert rætt á fundinum.

Eiður H. Eiðsson, Guðrún Jack og Ólafur G. Emilsson.

Garðar Mýrdal, Úlfar Þormóðsson og Einar Eiríksson.

Guðmundur Sighvatsson og Ásgeir Beinteinsson.