5 Júní 2013 12:00
Á undanförnum mánuðum hefur hlutum ítrekað verið stolið af gestum á skemmtistöðum á höfuðborgarsvæðinu. Einkum á þetta við um staði í miðborginni, en þegar tilkynnt er um málin til lögreglu kemur í ljós að atvikin eru keimlík. Svo virðist sem þjófarnir nýti tækifærið þegar fólk setur hluti til hliðar og/eða lítur af þeim. Mörgum farsímum og töskum hefur t.d. verið stolið með þessum hætti. Sama gildir líka um fatnað, en jökkum, frökkum, úlpum og öðrum yfirhöfnum fólks er einnig stolið á þennan máta á skemmtistöðum. Þjófarnir eru einkar bíræfnir og stela bæði af fólki innanhúss og utan, en dæmi eru um mál þar sem stolið er af gestum skemmtistaða þar sem þeir bíða í biðröð eftir að vera hleypt inn. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biður því gesti á skemmtistöðum að vera alveg sérstaklega á varðbergi hvað þetta varðar.
Ætla má að hinir stolnu munir séu m.a. seldir á netinu og því ættu kaupendur varnings á þeim vettvangi að hafa varan á. Þótt mörgum finnist erfitt að ganga úr skugga um að hlutur sé ekki illa fengin er samt ýmislegt hægt að gera. Biðja má um kvittun frá upphaflegum kaupum, t.d. með þeim formerkjum að kanna hvort hluturinn sé í ábyrgð. Ef keypt eru notuð raftæki skal athugað hvort réttir fylgihlutir séu sannarlega til staðar, þ.e. snúrur, leiðbeiningarbæklingar, hleðslutæki o.s.frv.