5 September 2006 12:00

Búist er við mikilli umferð vegna landsleiks Íslendinga og Dana á Laugardalsvelli á morgun, miðvikudaginn 6. september, klukkan 18:05. Lögreglan í Reykjavík beinir því til knattspyrnuáhugamanna að þeir leggi tímanlega af stað og sýni þolinmæði. Ekki síst eftir leikinn en þá verður umferðin væntanlega enn þyngri.

Uppselt er á leikinn og verða áhorfendur tæplega 10 þúsund. Lögreglumenn verða á helstu gatnamótum í nágrenni vallarins og stýra umferðinni eftir því sem þörf krefur. Ljóst er að ekki geta allir vallargestir lagt bílum sínum við Laugardalsvöllinn en í nágrenni hans eru víða ágæt bílastæði. Gott veðurútlit er fyrir morgundaginn og því ætti engum að muna um að leggja smáspöl frá leikvanginum og ganga í fáeinar mínútur að vellinum. Formleg dagskrá vegna leiksins hefst með fjölskylduhátíð á gervigrasvellinum í Laugardal klukkan 16:00 á morgun. Þangað er upplagt að mæta fyrir þá sem hafa tök á.

Rétt er að taka fram að neysla áfengis og tóbaks er stranglega bönnuð á viðburðum Knattspyrnusambands Íslands. Að síðustu vill lögreglan geta þess að hún vonast eftir hagstæðum úrslitum í leiknum á morgun. Áfram Ísland!