13 Nóvember 2008 12:00

Um tuttugu og fimm manns sóttu fund sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt í Hraunbæ á þriðjudag. Um var að ræða árlegan fund sem lykilfólki í Árbæ, Grafarholti og Norðlingaholti er boðið til en á honum var farið ítarlega yfir stöðu mála í hverfunum þremur. Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn reið á vaðið og fjallaði um umferðina en í þeim málum horfir til miklu betri vegar en áður. Dæmi um það er að umferðaróhöppum þar sem slys hafa orðið á fólki hefur fækkað mikið í Árbæ það sem af er árinu. Fyrstu átta mánuði ársins var 31 slys af þessu tagi skráð hjá lögreglu en á sama tímabili 2007 voru þau 62. Heimir Ríkarðsson svæðisstjóri fór því næst yfir þróun annarra mála en í Árbæ fækkaði bæði auðgunar- og fíkniefnabrotum á síðasta ári (2007) í samanburði við árið á undan (2006) og þá fækkaði einnig tilkynningum um eignaspjöll. Hinsvegar fjölgaði ofbeldsbrotum í hverfinu á milli þessara ára. Á sama tímabili fækkaði jafnframt auðgunarbrotum í Grafarholti og Norðlingaholti. Til þessa málaflokks teljast m.a. innbrot en þeim fjölgaði hinsvegar í þessum tveimur hverfum á umræddu tímabili.

Á fundinum kynnti Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri einnig niðurstöður könnunar um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Íbúar í Árbæ, Grafarholti og Norðlingaholti eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila nokkuð góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í hverfunum. Í sömu könnun kom jafnframt fram að íbúarnir telja innbrot og umferðarlagabrot mestu vandamálin. Á fundinum var ennfremur rætt töluvert um nágrannavörslu en hún hefur verið tekin upp á ýmsum stöðum í umdæminu. Fundarmenn voru mjög áhugasamir um að koma á nágrannavörslu sem víðast en lögreglan er alltaf tilbúin að vera íbúunum innan handar í þeim efnum.

Jóhann Davíðsson, Heimir Ríkarðsson og Björn Bjartmarz.

Ágúst Ólason og Bjarni Þórðarson.

Jón Ragnar Jónsson og Sigrún Jónsdóttir.