17 Nóvember 2010 12:00

Mikilvægi öflugrar nágrannavörslu var undirstrikað á fundi sem haldinn var í þjónustumiðstöðinni í Hraunbæ í gær. Tilefni fundarins var að fara yfir þróun brota í Árbæ, Norðlingaholti og Grafarholti en ástand mála er nokkuð misjafnt eftir því hvar borið er niður. Þótt innbrotum á höfuðborgarsvæðinu hafi almennt fækkað verulega á milli áranna 2009 og 2010 nær þessi jákvæða þróun ekki til allra hverfa. Þannig eru innbrot á heimili í Árbæ ámóta mörg frá ársbyrjun til októberloka í samanburði við sama tímabil í fyrra. Þetta er auðvitað áhyggjuefni en hætt er við að ástandið væri verra ef ekki kæmi til öflug nágrannavarsla í hverfinu. Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 4, ræddi einmitt um þetta á fundinum og hrósaði jafnframt íbúum í Árbæ sem halda úti öflugri nágrannavörslu. Hann ítrekaði einnig að fólk skuli láta lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir og að það skrifi líka hjá sér, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Upplýsingar af þessu tagi geta reynst lögreglu mjög gagnlegar.

Margt annað var til umfjöllunar sem ekki verður tíundað hér en þess í stað er vísað í tölfræði frá fundinum sem hægt er að nálgast hér. Þótt samanburður sé áhugaverður verður að hafa hugfast að svæðin eru ólík. Á einum stað kann að vera fjölþætt atvinnustarfsemi og því mörg fyrirtæki í hverfinu en annars staðar getur því verið öðruvísi farið. Atriði sem þessi geta haft áhrif þegar um t.d. þjófnaðarbrot og fjölda þeirra er að ræða. Markmið lögreglu eru samt alveg óháð þessu því þau eru einfaldlega að fækka brotum í umdæminu og auka öryggistilfinningu íbúa á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is