26 Janúar 2016 17:32

Geysilegt álag hefur verið á lögreglumönnum á Suðurlandi í dag. Auk köfunarslyss á Þingvöllum þurfti að sinna vinnuslysi á Selfossi, bílveltu á Biskupstungnabraut ofan við Reykholt, bílveltu í Kömbum, bílveltu á Þingvallavegi við Kjósaskarðsveg og útafakstri á Suðurlandsvegi í Ölfusi.  Ekið var á hest á Gaulverjabæjarvegi í morgun og fleiri verkefni komu til kasta lögreglumanna.  Allt þetta átti sér stað á tímabilinu frá því uppúr klukkan sjö í morgun til klukkan 13.  Ekki var hægt að sinna öllum verkefnunum strax.  Í einu tilviki var leitað til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem sinnti umferðaróhappinu við Kjósaskarðsveg auk þess barst liðsstyrkur frá Hvolsvelli.  Mikil hálka hefur verið á vegum á Suðurlandi í dag.  Lögreglan á Suðurlandi hvetur alla ökumenn til að aka með gát og ekki vera á ferð á ökutækjum nema þau séu vel búin til vetraraksturs.  Gott ráð er að tjöruþvo hjólbarða.