27 September 2006 12:00

Reykjavíkurborg verður myrkvuð annað kvöld, fimmtudaginn 28. september, frá klukkan 22:00 – 22:30. Þá verður slökkt á allri götulýsingu og í einhverjum tilvikum á lýsingu við fyrirtæki og stofnanir. Þetta er gert í tengslum við alþjóðlega kvikmyndahátíð í borginni en erindi þess efnis var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur. Rafmagn verður ekki tekið af íbúðarhúsnæði og fólk er í sjálfsvald sett hvort það slekkur ljósin á áðurnefndum tíma eður ei. Það skal líka tekið fram að þessi myrkvun hefur engin áhrif á öryggiskerfi og þá verða öll umferðarljós í borginni virk.

Lögreglan í Reykjavík verður með aukinn viðbúnað vegna þessarar uppákomu. Allur bílafloti hennar verður nýttur af þessu tilefni, bæði merktir og ómerktir lögreglubílar. Þá getur fólk haft samband í síma 112 ef það telur ástæðu til. Annars hvetur lögreglan alla til að vera heima við og njóta þess sem himininn hefur upp á að bjóða.