28 Apríl 2015 10:27

Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært 28 ökumenn fyrir of hraðan akstur í umdæminu á undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 150 km. hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 km. á  klukkustund. Þar var á ferðinni sautján ára piltur sem var með rúmlega tveggja mánaða gamalt ökuskírteini. Haft var samband við forráðamenn hans og þeim tilkynnt um málið.

Annar ökumaður, sem ók of hratt, var með tveggja ára barn í barnabílstól í aftursætinu, en öryggisbelti í stólnum var ekki spennt.

Fleiri ökumenn urðu uppvísir að því að brjóta umferðarlög ss. með því að sinna ekki stöðvunarskyldu og tala í síma án tilskilins búnaðar.