12 Júní 2020 12:15

Nagladekk og sektir

Lögreglan á Austurlandi hvetur ökumenn sem enn kunna að vera með nagladekk undir bílum sínum að gera bragarbót á hið fyrsta. Sektað verður fyrir slík brot frá og með mánudeginum 15. júní næstkomandi.

Önnur umferðarlagabrot – fjölgun

Lögregla hefur freistað þess að halda úti öflugu umferðareftirliti síðustu mánuði í samræmi við stefnu hennar og markmið um fækkun slysa. Það sem af er ári eru skráð umferðarslys jafnmörg fyrstu fimm mánuði þessa árs og þau voru á sama tíma árið 2019 eða tíu talsins. Staðan er því ásættanleg sé miðað við meðalfjölda skráðra slysa árin 2015 til 2019 sem eru 52 slys á ári.

Áhyggjuefni er þó að það sem af er júnímánuði hefur orðið umtalsverð fjölgun skráðra umferðarlagabrota hjá lögreglu. Varhugavert er að alhæfa um ástand mála miðað við svo stutt tímabil en fjölgunin vekur samt athygli. Hún nemur 65% miðað við meðaltal áranna 2015 til 2019, fer úr 46 brotum að meðaltali í 76 brot nú. Hvort þarna er vísbending um aukið aðgæsluleysi ökumanna eða aukið eftirlit lögreglu skal ósagt látið. Flest þessara brota tengjast þó hraðakstri og er áhyggjuefni hvernig sem á er litið.

Lögregla hvetur því ökumenn, nú í byrjun sumars, til varkárni í hvívetna. Þannig má komast hjá afskiptum lögreglu og ekki síst koma í veg fyrir slys sem er okkar sameiginlega verkefni og markmið.

Gerum þetta saman.