14 Nóvember 2008 12:00

Í síðustu viku var haldinn undirbúningsfundur vegna nágrannavörslu í Skerjafirði. Að stofnun verkefnisins stóðu Prýðifélagið Skjöldur, hverfisráð Vesturbæjar, hverfislögreglan í Vesturbæ og Þjónustumiðstöð Vesturbæjar. Stofnfundurinn var haldinn í sal Hagaskóla og var mæting mjög góð. Vala Ingimarsdóttir, formaður hverfisráðs, setti fundinn fyrir hönd hverfisráðs Vesturbæjar. Pétur Guðmundsson afbrotafræðingur leiddi íbúa í allan sannleikann um hvernig að nágrannavörslu skyldi staðið og fórst það vel úr hendi. Miklar vonir eru bundnar við verkefnið. Svæðisstjóri var kosinn, Ívar Pálsson og ásamt honum voru kosnir götustjórarnir Gunnhildur Ólafsdóttir og Björn Júlíusson. Tengiliður Reykjavíkurborgar er Trausti Jónsson, frístundaráðgjafi Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar og tengiliður hverfislögreglu er Ásgeir Guðmundsson. Góð stemning var á fundinum og greinilegt að allir fundargestir voru á einu máli um að með því að byggja á þeim gríðarlega félagsauði sem fyrir finnst í hverfinu er hægt að stuðla að öruggara umhverfi.