17 Maí 2004 12:00

Þann 14. maí s.l. lauk fyrstu önn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins 2004 en hún hafði þá staðið yfir frá janúarbyrjun. 40 nemendur hófu þá nám, tveir þeirra hættu námi á önninni og það voru því 38 nemendur sem þreyttu áfangapróf að þessu sinni. Tveir þeirra náðu ekki fullnægjandi árangri í áfangaprófum annarinnar.

Bestum námsárangri á önninni, 9,04 í meðaleinkunn, náði Kári Erlingsson og í næstu sætum þar á eftir voru þau María Pálsdóttir og Sigurður Pétur Ólafsson. María náði meðaleinkunninni 8,43, Sigurður Pétur 8,39. Skólastjóri Lögregluskólans, Arnar Guðmundsson, veitti þessum þremur nemendum sérstaka viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.

Núna tekur við fjögurra mánaða starfsþjálfun hjá þeim 36 nemendum sem luku prófum annarinnar með fullnægjandi árangri og fer hún fram hjá lögregluembættunum í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík.

Markmiðið með starfsþjálfuninni er að nemendurnir fái innsýn í lögreglustarfið og öðlist skilning á því; að þeir þjálfist og þroskist þannig að þeir geti leyst viðfangsefni sjálfstætt; að þeir fái skilning á samhenginu milli fræðilegu kennslunnar í grunnnámi skólans og lögreglustarfsins í raun og að þeir séu reiðubúnir til náms á þriðju önn skólans sem hefst um miðjan september n.k.