17 Júní 2012 12:00

Nokkur erill var hjá lögreglunni á Akureyri í gærkvöldi og nótt. Margir voru úti að skemmta sér og þurfti lögreglan aðallega að sinna verkefnum tengdu skemmtanalífinu.

Nokkrar tilkynningar og afskipti af aðfinnsluverðu aksturslagi ökumanna komu upp en aðallega var það að menn voru að spóla í hringi með tilheyrandi hávaða og látum.

Þá ruddust þrír menn inn á heimili á Akureyri og lömdu húsráðanda. Tengist einhverjum deilum á milli aðila. Húsráðandi slapp með minniháttar meiðsl.

5 voru fluttir á slysadeild af lögreglu eftir að hafa lent í slagsmálum í miðbænum. Einn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild eftir líkamsárás.

Tveir voru teknir fyrir ölvun við akstur en annar þeirra ók á staur í miðbænum og utan í bifreið.

Þá voru tveir handteknir eftir að hafa sparkað og skemmt bifreið á bifreiðastæði í miðbænum.

Tveir ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur innanbæjar á Akureyri en annar þeirra var á mótorhjóli og mældist á 93 km/klst þar sem hámarkshraði er 50.

Þá var tilkynnt um nokkur hópslagsmál í miðbænum eftir að skemmtistaðir bæjarins lokuðu en mikill mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan staðina eftir lokun.