8 Mars 2013 12:00

Nýjar leiðbeiningar til að fyrirbyggja alvarlega atburði á borð við skotárásir verða sendar öllum skólum og barnaheimilum í Noregi. Gert er ráð fyrir að leiðbeiningarnar verði kynntar í byrjun næsta skólaárs og að áætlanir um viðbrögð við slíkum voðaverkum verði tilbúnar næsta vetur.

Ákveðið hefur verið að uppfæra áætlun frá 2009 um fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð við skotárásum í skólum.  Sú áætlun átti rætur að rekja til skotárásar í skóla í Kauhajoki í Finnlandi árið áður þar sem níu nemendur og einn kennari voru myrtir.

Að sögn Erlings Børstad, yfirlögregluþjóns við embætti norska ríkislögreglustjórans, var áætluninni frá 2009 vel tekið en hins vegar var henni ekki alls staðar hrint í framkvæmd. „Þess vegna stefnum við nú að því að þátttakan verði 100% á öllum skólastigum,“ segir hann. Hann leggur áherslu á að þetta eigi við um alla leik-, grunn- og framhaldsskóla í Noregi, þar með talið háskóla.

Menntamálaráðuneyti Noregs og dómsmálaráðuneytið ákváðu í desembermánuði að nauðsynlegt væri að uppfæra áætlunina frá 2009.  Sú ákvörðun var tekin fjórum dögum eftir að byssumaður myrti 20 börn og sex starfsmenn í barnaskóla í Newtown í Connecticut í Bandaríkjunum. 

Vinnuhópur hefur verið myndaður um verkefnið og síðar er gert ráð fyrir fundum lögreglu og skólayfirvalda í öllum umdæmum norsku lögreglunnar. Stefnt er að því að fyrir liggi áætlun um viðbrögð og viðbúnað vegna „alvarlegra skólaatvika“ í hverjum skóla í Noregi. Að auki verður hugað sérstaklega að fyrirbyggjandi aðgerðum.    

Eitt álitaefnið er hvort einkaaðilar eigi að koma að ráðgjöf og áætlanagerð í því skyni að fyrirbyggja skotárásir í skólum. Að sögn Erlings Børstad verður ekki lagt bann við aðkomu einkafyrirtækja en þess verður gætt í hvívetna að slíkir aðilar taki ekki að sér verkefni sem heyra undir lögreglu.