20 Janúar 2021 15:03

Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra: 

  • Veðurstofa Íslands hækkar viðbúnaðarstig í Hættustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi
  • Rýming á Siglufirði

Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að hækka viðbúnaðarstig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi í hættustig. Ákveðið hefur verið að rýma reit syðst á Siglufirði og mun lögregla hafa samband við þá sem þurfa að rýma. Í morgun kom í ljós að snjóflóð hafði fallið á skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði og valdið talsverðu tjóni. Svæðið mannlaust á þeim tíma.

Aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð á Akureyri og komið á stöðugum samskiptum við alla hlutaðeigandi aðila til að tryggja upplýsingaflæði. Almannavarnadeild óskaði eftir því við Landhelgisgæsluna að varðskip yrði á svæðinu, til aðstoðar ef á þyrfti að halda, og mun varðskipið Týr vera á leiðinni norður.

Áfram verður haldið að fylgjast náið með aðstæðum á Tröllaskaga og viðeigandi ráðstafanir gerðar ef á þarf að halda. Íbúar og aðrir sem eru á þessu svæði eru beðnir um að fylgjast vel með veðurspá: Búast má við talsverði ofankomu á Tröllaskaga fram yfir komandi helgi.

Nokkuð stíf norðlæg átt með snjókomu hefur verið síðan í gærmorgun (mánudag) og talsverð úrkoma mæld á annesjum Norðanlands. Í gær féll snjóflóð yfir Ólafsfjarðarveg og lokaði honum en í dag sáust talsvert stór snjóflóð úr Ósbrekkufjalli í Ólafsfirði og féll eitt þeirra fram í sjó. Búist er við stífri norðan- og norðaustan átt með snjókomu og éljum fram yfir helgi.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgjast áfram vel með framvindu og horfum á svæðinu í nánu samstarfi við Veðurstofu Íslands.