25 Maí 2009 12:00

Norðurlandamót lögreglumanna í handbolta fór fram hér á landi dagana 21. til 24. maí sl. Mótið fer fram á fjögurra ára fresti og skiptast norðurlandaþjóðirnar á að halda mótið. Þetta var í þriðja sinn sem spilað er hér á landi og að þessu sinni mættu aðeins þrjár þjóðir til mótsins, Danmörk, Ísland og Noregur.

Mótið fór fram í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfiðri sl. föstudag og laugardag. Á föstudag voru spilaðir tveir leikir, Danir unnu Norðmenn með 32 mörkum gegn 24 og Ísland vann Danmörk með 28 mörkum gegn 27. Á laugardag réðust úrslit mótsins í æsispennandi leik Íslendinga og Norðmanna. Norðmenn voru með yfirhöndina lengst af og ljóst að Danir yrðu meistarar ef Norðmenn ynnu Íslendinga. Úrslit leiksins réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndum leiksins er Íslendingar skoruðu síðasta markið, 10 sekúndum fyrir leikslok. Íslendingar unnu með 26 gegn 25 mörkum Norðmanna og með því urðum við Norðurlandameistarar í handbolta lögreglumanna í fyrsta skiptið.

Besti sóknarmaður mótsins var valinn Svavar Vignisson, besti varnarmaður Norðmaðurinn Trond Hægstad og besti markmaður Daninn Mathias Petersen. Markhæsti leikmaður mótsins var Ásbjörn Stefánsson með 17 mörk.