19 Júní 2007 12:00

Á tímabilinu 13. til 27. júní standa yfir hér á landi sameiginlegar æfingar sérsveitar norsku lögreglunnar og sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Norska sérsveitin kallast Beredskapstroppen Delta. Rekja má samstarf sérsveitanna til ársins 1982.  Þá sóttu fyrstu meðlimir íslensku sérsveitarinnar nýliðanámskeið hjá norsku sérsveitinni og hefur samstarf sérsveitanna varað í 25 ár. Á þessum árum hafa íslenskir sérsveitarmenn margoft tekið þátt í námskeiðum og æfingum hjá norsku sérsveitinni og því sérstaklega ánægjulegt að norska sérsveitin skuli nú taka þátt í æfingum hérlendis með sérsveit ríkislögreglustjóra með svo fjölmennu lögregluliði.

Um margvíslegar æfingar er að ræða og hafa sérsveitirnar notið aðstoðar Landhelgisgæslu Íslands sem leggur til varðskip og þyrlur. Alls taka um 100 sérsveitarmenn þátt í æfingunum. Svo fjölmenn sérsveitaræfing lögreglu hefur ekki áður verið haldin hér á landi. 

Ríkislögreglustjóri stýrir æfingunum í samvinnu við yfirmenn norsku sveitarinnar.