18 Janúar 2007 12:00
Lögregluskóli ríkisins er í stöðugu og nánu samstarfi við aðrar lögreglumenntastofnanir á Norðurlöndum. Eitt samstarfsverkefnanna kallast NordCop en það hefur tvö meginmarkmið, annars vegar að mynda starfshópa með kennurum frá öllum skólunum á tilteknum sviðum lögreglumenntunar og hins vegar að stuðla að nemendaskiptum innan skólanna þannig að nemandi í almennu lögreglunámi geti tekið hluta náms síns í öðru landi.
Í ár er annað árið sem nemendaskiptin fara fram en þau eru með þeim hætti að hingað koma, í mánuð í senn, nemendur frá hinum Norðurlöndunum, allajafna einn frá hverju landi. Á síðasta ári komu tveir nemendur hingað í þessu verkefni, annar frá Danmörku og hinn frá Noregi. Enn sem komið er hafa íslenskir lögreglunemar ekki farið til hinna Norðurlandanna í þessum tilgangi en væntanlega verður það fyrr en varir.
Ekki er um það að ræða að norrænum nemendum gagnist, tungumálsins vegna, að sitja löngum stundum í bóklegum kennslustundum í grunnnámi Lögregluskóla ríkisins og því hafa þeir að stórum hluta verið í einskonar starfsþjálfun hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Um þessar mundir eru staddir hér tveir norskir lögreglunemar, Inger-Karin Kåsbøll og Øystein Jørstad. Inger-Karin er frá Þrándheimi og Øystein frá Lofoten. Þau eru bæði nemendur við Lögregluháskólann í Bodø og eru núna á öðru ári grunnnáms, starfsþjálfunarönn.
Meðfylgjandi er mynd af þeim Inger-Karin og Øystein í einkennisbúningi norsku lögreglunnar en viðbúið er að þeim megi sjá bregða fyrir næsta mánuðinn í fylgd íslenskra lögreglumanna.
Inger-Karin Kåsbøll og Øystein Jørstad
Inger-Karin Kåsbøll og Øystein Jørstad