21 Október 2009 12:00
Nú þegar svartasta skammdegið fer að skella á þykir rétt að minna á mikilvægi endurskinsmerkja fyrir gangandi vegfarendur í umferðinni. Foreldrar eru hvattir til að setja endurskinsmerki á fatnað barna sinna sem oftar en ekki eru dökkklædd á ferð. Þá er ekki síður mikilvægt að fullorðnir noti þennan sjálfsagða og einfalda öryggisbúnað sér einnig til verndar.
Lögreglumenn við eftirlitsstörf hafa tekið eftir því að mörg börn og ekki síður fullorðnir eru á ferðinni án endurskinsmerkja, með tilheyrandi aukinni hættu á umferðarslysum í skammdeginu. Endurskinsmerki eru eins og kunnugt er afar einfalt en um leið mikilvægt öryggistæki í umferðinni, ekki síst núna þegar dimmt er að verða á morgnana og síðdegis. Einnig má nefna að íþrótta- og æskulýðsstarf barna og unglinga fer í einhverjum tilvikum fram fyrrihluta kvölds og þá er mjög mikilvægt að endurskinsmerkin séu til staðar hjá krökkunum enda komið myrkur.