28 September 2004 12:00

Embætti Ríkislögreglustjóra afhenti í gær Lögreglunni á Hvolsvelli nýja og glæsilega lögreglubifreið til afnota en um er að ræða lögreglubifreið af gerðinni Volvo S80 turbo dísel og leysir hún af hólmi Subaru lögreglubifreið sem þjónað hefur embættinu farsællega í nokkur ár en þá lögreglubifreið er búið að keyra tæplega 400.000 km. Hin nýja Volvo lögreglubifreið er vel tækjumbúin; m.a. Tetra fjarskiptabúnaði með ferilvöktun sem segja má m.a. að sé öryggisbúnaður fyrir þá lögreglumenn sem starfa með lögreglubifreiðina á hverjum tíma auk þess sem búnaðurinn þjónar ýmsum öðrum tilgangi í tengslum við löggæslu, VHS talstöð, NMT farsíma og hraðamælingatæki, radar. Lögreglubifreiðin er afar vel útbúin, samkvæmt útboðslýsingu og má í því sambandi nefna löglegan dráttarkrók, hlífðarpönnu á undirvagni, upphækkun, stöðuleikastýringu og fl. Lögreglan hefur að undanförnu verið að taka lögreglubifreiðar sem þessa í notkun víða um land og hefur m.a. mátt sjá þær á götum höfuðborgarinnar og í Árnessýslu svo einhverjir staðir séu nefndir. Lögreglan á Hvolsvelli er því um þessar mundir vel búin hvað ökutæki varðar en fyrir er jeppi af gerðinni Isuzu Trooper, tæplega fimm ára gamall.