30 Október 2009 12:00

Ný lögreglustöð hefur verið opnuð á Krókhálsi 5b í Árbæ en þaðan er sinnt almennri löggæslu. Lögreglumennirnir eru á sólarhringsvöktum og fara í útköll á svæðinu en lögreglustöðin þjónar íbúum í Árbæ, Norðlingaholti, Grafarvogi, Grafarholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Á sama svæði er önnur lögreglustöð en átta rannsóknarlögreglumenn starfa á rannsóknarsviði sem er á Völuteigi 8 í Mosfellsbæ. Stöðvarstjóri á lögreglustöð 4, en undir hana heyra bæði Krókháls 5b og Völuteigur 8, er Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn en lögreglufulltrúi er Einar Ásbjörnsson. Netföng þeirra eru: arni.sigmundsson@lrh.is og einar.asbjornsson@lrh.is

Þess má geta að nýja lögreglustöðin í Árbæ er til húsa á sama stað og Lögregluskóli ríkisins. Samvinna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Lögregluskólans hefur ávallt verið mjög góð og búast má við að hún aukist ennfrekar. Þannig skapar nálægðin við nýju lögreglustöðina ýmsa möguleika þegar kemur að þjálfun lögreglunema. Samfara breytingunni var lögreglustöðinni á Fjallkonuvegi 1 í Grafarvogi lokað en þar var heldur þröngt um lögregluna. Áfram eru þó uppi áform um að byggja nýja lögreglustöð við Skarhólabraut í Mosfellsbæ. Þegar af því verður mun starfsemin á Krókhálsi 5b og Völuteigi 8 flytjast þangað en óvíst er hvenær af því getur orðið.

Minnt er á að almennum fyrirspurnum og upplýsingum til lögreglu á þessu svæði er hægt að koma á framfæri í síma 444-1180 allan sólarhringinn og fyrirspurnum um rannsóknir mála í síma 444-1190 á skrifstofutíma. Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu ber hinsvegar að hringja í 112.

Meðfylgjandi myndir voru teknir þegar nýja lögreglustöðin á Krókhálsi 5b var formlega tekin í notkun. Efst gefur að líta tvo lögreglumenn sem voru í óða önn að koma sér fyrir og þar fyrir neðan eru Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri í skoðunarferð um húsið með Þóru varðstjóra. Neðst takast þeir svo í hendur lögreglustjórinn og Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskólans, þegar sá síðarnefndi bauð lögregluna velkomna.