15 Maí 2009 12:00
Ný lögreglustöð hefur verið opnuð á Fjallkonuvegi 1 við Gullinbrú í Grafarvogi. Jafnframt hefur lögreglustöðinni í Langarima 21 verið lokað. Símanúmerið er hinsvegar óbreytt eða 444-1180.
Starfsemi á nýju lögreglustöðinni er með eilítið öðru sniði en áður var í Grafarvogi. Hún tekur mið af breytingum sem gerðar hafa verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Umdæminu er skipt í fimm svæði og er ein lögreglustöð á hverju. Grafarvogur tilheyrir svæði fjögur líkt og Grafarholt, Norðlingaholt, Árbær, Mosfellsbær, Kjalarnes og Kjósarhreppur. Stöðvarstjóri er Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn en hann hefur aðsetur á lögreglustöðinni á Völuteigi 8 í Mosfellsbæ, sími 444-1190. Þar er einnig til húsa sérstakt rannsóknarsvið sem sinnir verkefnum í áðurnefndum hverfum/svæðum. Átta rannsóknarlögreglumenn eru þar að störfum.
Áformað er að ný lögreglustöð verði opnuð á Skarhólabraut í Mosfellsbæ árið 2010. Þá verður lögreglustöðvunum á Fjallkonuvegi 1 við Gullinbrú og á Völuteigi 8 lokað.
Steindór Ögmundsson, fulltrúi Landsbankans, afhenti Geir Jóni Þórissyni yfirlögregluþjóni lyklana að nýju lögreglustöðinni. Aðrir á myndinni, talið frá vinstri, eru Benedikt H. Benediktsson lögreglufulltrúi, Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Eiður H. Eiðsson aðalvarðstjóri og Kristján Ó. Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn.