27 September 2005 12:00
Lögreglan í Reykjavík opnar nýja lögreglustöð í Álfabakka 12 í Mjóddinni miðvikudaginn 28. september. Frá sama tíma er lögreglustöðinni í Völvufelli lokað. Lögreglan í Reykjavík er með þessu móti að færa sig nær íbúum Breiðholts með því að vera í aðal þjónustu- og verslunarkjarna Breiðholts. Lögreglustöðin í Mjóddinni verður í mikilli nálægð við og í nánum tengslum við Þjónustumiðstöð Breiðholts. Með því móti er samstarf lögreglunnar í Reykjavík og Reykjavíkurborgar aukið í Breiðholtinu og er markmiðið að byggja á góðu starfi lögreglunnar í Breiðholtinu og efla það enn frekar. Aðalvarðstjóri hefur verið skipaður til að veita stöðinni forstöðu og auglýst hefur verið eftir lögreglumönnum sem eingöngu munu vinna í Breiðholti. Auk þess er hverfislögreglumaður áfram starfandi í Breiðholti. Með þessu móti er tekið upp sama fyrirkomulag á löggæslu og verið hefur í Grafarvogi undanfarin ár og gefist mjög vel. Stjórnandi og hverfislögreglumaður eru starfandi á almennum dagvinnutíma en lögreglumenn frá stöðinni verða á vöktum frá hádegi og vel fram yfir miðnætti. Auk þess mun eftir sem áður almennri löggæslu og umferðarlöggæslu verða sinnt af lögreglumönnum sem eru á vakt allan sólarhringinn eins og verið hefur.Laugardaginn 1. október gefst Breiðhyltingum og öðrum áhugasömum tækifæri til að skoða lögreglustöðina og kynna sér starf lögreglunnar í Reykjavík. Tækifæri gefst til að skoða lögreglubíl, setjast á lögreglumótorhjól og heilsa upp á lögregluhund. Auk þess verða ýmsar uppákomur í Mjóddinni vegna opnunar Þjónustumiðstöðvar Breiðholts á sama tíma. Allir eru velkomnir og er opið frá kl. 14 til 16.