10 Maí 2007 12:00

Um 40% lögreglumanna hefur orðið fyrir ofbeldi í starfi

                                                        

Hótanir og ofbeldi í garð lögreglumanna er verulegt áhyggjuefni innan stéttarinnar. Um 70% starfandi lögreglumanna hefur verið hótað. Um 43% lögreglumanna hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi án meiðsla og 40% fyrir ofbeldi sem leiddi til smávægilegra eymsla. Um 15% lögreglumanna hafa orðið fyrir ofbeldi við störf sín sem leiddi til stórvægilegra eymsla. Um 4% starfandi lögreglumanna hafa orðið fyrir ofbeldi við skyldustörf sem leiddi til alvarlegra áverka s.s. beinbrota og höfuðáverka og 1% hafa orðið fyrir barðinu á sambærilegu ofbeldi utan vinnutíma. Fimm lögreglumenn hafa orðið fyrir ofbeldi sem leiddi til líkamlegrar fötlunar, örorku eða útlimamissis. Um fjórðungur tilkynntra brota gegn lögreglumönnum eru framin á lögreglustöð eða í lögreglubíl. Þessar upplýsingar má finna í skýrslu um ofbeldi gegn lögreglumönnum sem embætti ríkislögreglustjóra hefur gefið út.

Ritið byggir á tveimur umfangsmiklum rannsóknum ríkislögreglustjóra, spurningalistakönnun sem lögð var fyrir lögreglumenn árið 2005 og rannsókn á tilkynntum ofbeldisbrotum gegn lögreglumönnum á árunum 1998 til 2005.  Niðurstöðurnar bentu til þess að skoða þyrfti nánar hótanir og ofbeldi gegn lögreglumönnum til að leita leiða til að draga úr tíðni og alvarleika ofbeldisins.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur á undanförnum árum haft forgöngu um ýmsar fræðilegar rannsóknir sem varða innri málefni lögreglunnar, afbrotaþróun, forvarnir og viðhorfskannanir.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að þegar hafi verið gripið til aðgerða til að styðja lögreglumenn sem hafa verið beittir ofbeldi í starfi. „Í því skyni hefur dómsmálaráðherra veitt fjármagni til þess að auka félagslegan stuðning við lögreglumenn. Nýleg lagabreyting þyngir refsingar við ofbeldi í garð lögreglumanna og refsirammi brotanna hefur verið hækkaður úr 6 ára fangelsi í 8 ár. Þá var jafnframt sett inn sjálfstætt ákvæði sem kveður á um að refsivert verður að tálma lögreglu við störf sín. Einnig má benda á nýlegar breytingar á skipan lögreglumála, með fækkun lögregluembætta og bættu starfsumhverfi lögreglumanna sem eykur öryggi þeirra í starfi.”

Ritið má nálgast á rafrænu formi hér.

Ítarefni með kynningunni má nálgast á rafrænu formi hér.

Myndir frá fundi með fréttamönnum 9. maí.