24 Mars 2003 12:00

Þann 4. október s.l. komu í Lögregluskólann 17 lögreglumenn og fyrrverandi lögreglumenn sem útskrifuðust frá skólanum árið 1982. Þágu þeir kaffiveitingar í boði skólans og afhentu við þetta tækifæri skólanum 34.000 krónur að gjöf til minnis um útskriftina.

Ákveðið hafði verið að kaupa dúkku til nota við líkamsæfingar og þrekpróf og var gjöfin nýtt til þeirra kaupa. Meðal þeirra sem útskrifuðust frá Lögregluskólanum 1982 var Guðbrandur Sigurðsson, lögreglufulltrúi við skólann, en hann hafði haft forgöngu um þetta mál.

Frá Svíþjóð var keypt samskonar dúkka og notuð er til æfinga við sænska, finnska og danska lögregluskólann. Nokkuð dróst að hún kæmi til landsins en nú er hún loks komin. Dúkkan er “karlmaður”, 80 kíló að þyngd og á án efa eftir að nýtast skólanum mjög vel, hvort heldur er við þjálfun nemenda eða í inntökuprófum. Dúkkunni hefur verið gefið nafnið Grettir Guðbrandsson en hún gengur í daglegu tali undir viðurnefninu Búbbi.

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Aðalsteinn Bernharðsson, Búbbi og Guðbrandur Sigurðsson.