Frá undirritun Umferðarsáttmálans. Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Þuríður Björg Björgvinsdóttir, Davíð Reynisson, Bjarni Máni Jónsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri LRH, Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, Björgvin Þór Guðnason, form. Ökukennarafélags Íslands, og Orri Vignir Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja.
8 Janúar 2015 17:20

Fjórir, ungir ökumenn skrifuðu undir Umferðarsáttmála allra vegfarenda við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Frumherja í Reykjavík í gær. Öllum nýjum ökumönnum býðst nú að gera slíkt hið sama, en Umferðarsáttmáli allra vegfarenda er leiðarvísir um það hvernig vegfarendur vilja hafa umferðina og hvernig umferðamenningu þeir vilja skapa. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, var viðstaddur athöfnina og skrifaði jafnframt undir Sáttmálann sem vegfarandi. Þá afhenti hann hinum ungu nýútskrifuðu ökumönnum Umferðarsáttmálann í viðhafnarskjali sem þeir höfðu ritað undir.

Umferðarsáttmáli allra vegfarenda lýsir ferðalagi vegfaranda – hvort sem hann er gangandi, akandi eða hjólandi. Hugmyndafræðin að baki verkefni sem gat Sáttmálann af sér er að vegfarendur komist sameiginlega að niðurstöðu um það hvað einkennir góða umferðarmenningu. Boðorð verði því til í eigu vegfarendanna sjálfra sem sammælast um viðurkennda hegðun í umferð og gera kröfu um að henni sé fylgt. Þannig er Umferðarsáttmálinn skrifaður af og fyrir vegfarendur.

Hugmyndin að Umferðarsáttmálanum varð til hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í árslok 2011 og 2012 var stofnaður undirbúningshópur með þátttöku fulltrúa frá Umferðarstofu (nú Samgöngustofa). Auglýst var eftir þátttakendum á samfélagsmiðlum lögreglu í ársbyrjun 2013 og í framhaldinu völdust 14 manns í verkefnið úr stórum hópi umsækjanda, lærðra og leikra. Umferðarhópurinn samanstóð af fulltrúum allra vegfarendahópa, hvað kyn, aldur og samgöngumáta varðar. Þátttakendur tóku síðan til við að greina þau atriði og þá hegðun sem segja má að sé til fyrirmyndar, skipti vegfarendur mestu í umferðinni og geti legið til grundvallar umferðarsáttmála – sáttmála sem tryggir öryggi og vellíðan vegfarenda.

Sérstaklega var að því gætt að óskir hins almenna vegfaranda kæmu fram í mótun Sáttmálans og því var m.a. opnuð sérstök síða á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem fram komu tillögur og gagnleg umræða sem unnið var úr í kjölfarið. Að lokinni þessari vinnu lá Umferðarsáttmáli fyrir, einskonar stjórnarskrá í umferðarmálum sem ætlað er að auka sameiginlegan skilning á því hvernig við viljum haga okkur í umferð, hvernig við sýnum hvort öðru tillitssemi og stuðlum þannig að auknu öryggi.

Þess má geta að Umferðarsáttmálinn verður kynntur nýjum og væntanlegum ökumönnum í nýrri kennslubók til B-réttinda.

Frá undirritun Umferðarsáttmálans. Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Þuríður Björg Björgvinsdóttir, Davíð Reynisson, Bjarni Máni Jónsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri LRH, Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, Björgvin Þór Guðnason, form. Ökukennarafélags Íslands, og Orri Vignir Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja.

Frá undirritun Umferðarsáttmálans. Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Þuríður Björg Björgvinsdóttir, Davíð Reynisson, Bjarni Máni Jónsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri LRH, Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, Björgvin Þór Guðnason, form. Ökukennarafélags Íslands, og Orri Vignir Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja.