6 Mars 2018 17:01

Einfaldari og sýnilegri merkingar

Í byrjun árs 2018 tók ríkislögreglustjóri upp nýjar merkingar fyrir ökutæki sín en eldri merkingar voru teknar í notkun árið 2002.

Hönnun merkinganna tekur mið af því sem tíðkast víða í Evrópu en sérstök áhersla var lögð á aukinn læsi- og sýnileika og hagræðingu. Öryggi lögreglumanna og almennings er lykilatriði og með breytingunum eykst sýnileiki tækjanna til muna.

Hönnun á útliti ökutækja lögreglunnar var gerð af Atla Þór Árnasyni og Herði Lárussyni hjá Kolofon hönnunarstofu.

Við hönnun á nýjum merkingum var leitast til þess að gera tækin eins sýnileg og mögulegt er, án þess að þau yrðu of „áberandi“ í umferðinni og hreinlega stælu athygli ökumanna frá akstrinum. Grafíkin er hönnuð með það í huga að brjóta upp formið á ökutækjunum með áberandi skálínum. Þetta er ein leiðin sem við notum til að gera þau meira áberandi, án þess að þurfa að setja of mikið af filmum og litum á hvert tæki.

Nýjar merkingar eru einfaldari, sýnilegri og er framleiðsla þeirra mun hagkvæmari.

Litir
Nýir litir, gulur og blár, voru valdir með það í huga að hámarka sýnileika, og þar með öruggi, bílanna. Þessir litir ættu líka að vera kunnulegir þeim sem hafa ferðast til norðurlanda og evrópu síðustu ára, en öll helstu nágrannaríki okkar hafa tekið upp bláan og neon gulan í merkingar á lögreglufarartækjum sínum.

Filmur
Á ökutækjunum eru notaðar filmur, sem eru sérstaklega framleiddar fyrir ökutæki viðbragðsaðila. Allar merkingar eru nú leystar með aðeins tveimur filmum, blárri og gulri. Litirnir voru valdir með hámarks sýnileika í huga við erfiðar veðuraðstæður.

Allar filmurnar sem eru notaðar á ökutækjunum eru endurskinsfilmur, sem eykur sýnileikann á tækjunum mjög mikið frá eldri merkingum, í rökkri og myrkri.

Gulu filmurnar eru í svokölluðum neon lit, sem eykur sýnileikann mjög mikið í umhverfinu. Notuð er einfölduð útgáfa af lögreglustjörnunni í kjölfar prófunar á hefðbundinni lögreglustjörnu sem hafði ekki þennan sýnileika sem að var stefnt.

Filmurnar koma í þessum tilteknu litum, frá framleiðanda, þannig að ekki er þörf að prenta á þær lit. Þetta eykur hagræðingu í vinnu við að merkja bílana og litasamræmi milli bíla verður eins og best er á kosið.

Ný ökutæki
Í lok marsmánaðar verða átta ökutæki af gerðinni Volvo V90 CC afhent lögregluliðum utan höfuðborgarsvæðisins, öll embætti fá eina bifreið. Um er að ræða bíla sem koma sérútbúnir frá Volvo Special Vehicles. Hemla og fjöðrunarkefi eru sérstyrkt auk þess sem bílarnir koma með öllum ljósabúnaði og rafkerfi tilbúnu.

Jafnframt verða tvær Volkswagen Transporter 4×4 bifreiðar afhentar lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í mars mánuði.

Ríkislögreglustjóri hefur óskað eftir tilboðum í 19 sérútbúin ökutæki nánar til tekið tólf fólksbifreiðar, tvo jeppa, tvær sendibifreiðar og þrjú mótorhjól. Niðurstaða tilboðanna kemur til með að liggja fyrir um næstu mánaðarmót.